Atvinnuleysi var 3% í júlí og dróst saman milli mánaða en það var 3,1% í júní. Sökum þess að atvinnuleysi dregst saman á sumrin gefur árstíðarleiðrétt atvinnuleysi betri mynd af þróun atvinnuleysis en árstíðarleiðrétt atvinnuleysi var 3,2% eða óbreytt milli mánaða.

Atvinnuleysið er ennþá mest á höfuðborgarsvæðinu eða 3,6%. Atvinnuleysið á landsbyggðinni er töluvert minna eða einungis 2%. Atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu var 3,7% í júní og minnkaði því um 2,5% milli mánaða. Á landsbyggðinni var atvinnuleysi 2,1% í júní og minnkaði um 5,9% milli mánaða. Atvinnuleysið minnkaði alls staðar milli mánaða en minnstar breytingar voru á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra. Atvinnuleysi er nú alls staðar minna en í júlí 2003 nema á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra.

Atvinnulausum körlum fækkaði um 8% milli júní og júlí. Fjöldi atvinnulausra kvenna jókst hins vegar um 0,5% frá júní síðastliðnum.

Atvinnuleysi kvenna er minnst á Norðurlandi vestra 1,4% og 1,8% á Vesturlandi en mest á Norðurlandi eystra 4,6% og á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum 4,5%. Atvinnuleysi karla er mest á höfuðborgarsvæðinu 2,9% en minnst á Norðurlandi vestra og Austurlandi 0,6%.

Atvinnuástandið batnar yfirleitt lítils háttar í ágúst miðað við júlí sem stafar aðallega af aukningu í árstíðabundinni starfsemi. Gera má ráð fyrir að atvinnuleysið minnki lítils háttar í ágúst og geti orðið á bilinu 2,8% til 3,1%.