Kaup Promens hf., móðurfélags Sæplasts, á breska plastframleiðslufyrirtækinu Bonar Plastics eru endanlega frágengin
Kaupverð Bonar Plastics er um þrír milljarðar króna og var gengið frá greiðslum og undirritun síðustu skjala vegna kaupanna í vikunni, eftir að hluthafafundur í Low and Bonar á dögunum hafði lagt blessun sína yfir kaupsamninginn sem undirritaður var í júlí sl.

Promens tók formlega við rekstrinum 6. september sl. Starfrækir samstæðan nú 19 verksmiðjur í 12 löndum, auk söluskrifstofa í Hong Kong, Kína og Víetnam.

Með kaupunum er orðin til ein stærsta fyrirtækjasamsteypa í heiminum á sviði hverfissteyptra plasteininga með starfsemi bæði í Norður-Ameríku og Evrópu, með tilheyrandi samlegaráhrifum. Meðal viðskiptavina félagsins eru fyrirtæki eins og DaimlerChrysler, Caterpillar, John Deere, Peugeot, Renault og Volvo. Um 2/3 framleiðslunnar eru allskyns íhlutir fyrir aðra framleiðendur en 1/3 framleiðslunnar eru eigin vörur, aðallega ker og tankar fyrir matvæla-, líftækni- og efnaiðnað.

Promens hf., sem er dótturfélag Atorku Group, var stofnað sl. vor þegar starfsemi Sæplasts var endurskipulögð. Promens er móðurfélag samstæðunnar en áfram verða notuð vörumerki Bonar Plastics. Einnig verður Sæplasts-vörumerkið notað áfram í ákveðnum vöruflokkum.