323 fyrirtæki í Noregi sem fengið hafa ríkisaðstoð vegna kórónuveirufaraldursins þurfa að endurgreiða aðstoðina. Hans Christian Holte, ríkisskattstjóri Noregs, segir fyrirtæki ýmist hafa sett sig í samband af fyrra bragði og boðist til að endurgreiða eða að málin hafi komið upp eftir ábendingar fjölmiðla eða athugun skattyfirvalda. 76 fyrirtæki hafa þegar endurgreitt styrkinn.

Norsk stjórnvöld hafa styrkt fyrirtæki beint sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli vegna kórónuveirufaraldursins til að greiða fastan rekstrarkostnað. Dæmi eru um að fyrirtæki, til að mynda veitingastaðir, sem ákveðið hafi að loka vegna endurbóta fyrir faraldurinn hafi sótt um og fengið styrki frá norska ríkinu í krafti þess að þau hafi ekki hafi verið tekjulaus. Í tilfellum sem slík mál hafa komið upp hefur fyrirtækjum verið gert að endurgreiða aðstoðina

Listi yfir styrki til allra fyrirtækja birtur

Í Noregi er opinberlega birtur listi yfir þau fyrirtæki þá sem þegið hafa ríkisaðstoð. Færri hafa sótt um styrkina en talið var í upphafi. Í viðtali við norska viðskiptamiðilinn E24 , segir Holte að birting listans opinberlega auki til muna traust almennings á aðgerðunum. Hér á landi er Vinnumálastofnun með til skoðunar hvort stofnunin telji sér heimilt að birta lista yfir fyrirtæki sem sett hafa starfsmenn á hlutabætur. Óskað hefur verið eftir áliti Persónuverndar á því.

Ráðgjafafyrirtæki sem E24 hafa rætt við segja birting listans í Noregi geti valdið því að fyrirtæki sækist ekki eftir ríkisaðstoð. Bæði vegna þess að ríkisaðstoð geti haft í för með sér neikvæða fjölmiðlaumfjöllun og þau vilji ekki gefa upp tölur um rekstur félagsins.

Hingað til hafa færri sótt um ríkisaðstoð en gert var ráð fyrir. Norsk stjórnvöld höfðu ráðgert að allt að 100 þúsund fyrirtæki myndu sækja um ríkisstyrki en þau eru einungis eru einungis 28 þúsund hafa gert það hingað til. Ríflega 8 þúsund umsóknum var hafnað. Yfir 19 þúsund fyrirtæki hafi fengið ríkisaðstoð en 323 fyrirtæki hafi verið gert að greiða. Umsóknirnar ná þó einungis til marsmánaðar en ekki er búið að opna fyrir umsóknir fyrir apríl.