365 - miðlar ehf. hafa yfirtekið Rauðsól ehf., samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár. 365 - miðlar gefa m.a. út Fréttablaðið og reka Stöð 2. Rauðsól, félag í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, var notað sl. haust til að kaupa fjölmiðlahlutann út úr Íslenskri afþreyingu, sem nú er komin í gjaldþrotaskipti.

Í tilkynningunni segir að í yfirlýsingu matsmanna, sem fylgdi samrunaáætluninni, komi fram að ef ekki yrði af fyrirhugaðri hlutafjárhækkun 365 - miðla verði ekki annað séð en að sameining félaganna geti leitt til þess að möguleikar lánardrottna 365 - miðla á fullnustu krafna sinna rýrni.

1,3 milljarðar greiddir inn með reiðufé

Samruninn gildir frá 1. janúar sl. og þá teljast 365 - miðlar hafa tekið yfir allar eignir og skuldir, réttindi og skyldur Rauðsólar. Þar með talin er veruleg hlutafjárhækkun Rauðsólar í síðasta mánuði. Hlutafélagaskrá bókar samrunatilkynninguna hinn 27. ágúst sl. en fyrr í mánuðinum var hlutafé Rauðsólar hækkað úr 500.000 krónum í rúmar 1.345 milljónir króna.

Einar Þór Sverrisson, lögmaður, sat í stórn Rauðsólar og skráði í gerðarbók félagsins í nóvember í fyrra heimild til allt að 1.500 milljóna króna hlutafjáraukningar félagsins. Hinn 5. ágúst sl. tilkynnti hann svo um fyrrgreinda hlutafjáraukningu til Hlutafélagaskrár. Hlutafélagaskrá óskaði staðfestingar á því að hlutaféð hefði verið greitt með peningum, þar sem það hefði ekki komið fram á tilkynningarblaðinu. Anna Þórðardóttir, endurskoðandi hjá KPMG, staðfesti hinn 12. ágúst að svo hefði verið.

Ingibjörg S. Pálmadóttir stjórnarformaður

Einar Þór Sverrisson, sem sat í stjórn Rauðsólar, situr einnig í stjórn 365 - miðla. Stjórnarformaður þess félags er Ingibjörg S. Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en auk þess situr í stjórn Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express. Hildur Sverrisdóttir, lögfræðingur hjá 365 - miðlum, situr í varastjórn.