Hluthafar Nova munu kjósa á milli sex frambjóðenda á aðalfundi fjarskiptafélagsins á miðvikudaginn. Auk ‏þriggja sitjandi stjórnarmanna sækjast þau Jóhannes Þorsteinsson, Sigríður Olgeirsdóttir og Magnús Árnason eftir sæti í stjórninni.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í mánuðinum þá bárust 44 tilboð til tilnefningarnefndar Nova. Svo virðist því sem 38 frambjóðendur hafi dregið framboð sín til baka. Einhugur var innan nefndarinnar að leggja til að eftirtalin verði kjörin í stjórnina:

  • Hugh Short, stjórnarformaður
  • Hrund Rudolfsdóttir, stjórnarmaður
  • Jón Óttar Birgisson, stjórnarmaður
  • Jóhannes Þorsteinsson
  • Sigríður Olgeirsdóttir

Auk þeirra hefur Magnús Árnason, sem starfaði sem þjálfari og framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova á árunum 2017-2022, boðið sig fram til stjórnar félagsins. Hann er sjálfstætt starfandi ráðgjafi hjá Marka ráðgjöf ehf. í dag.

Auk Hugh Short, Hrundar Rudolfsdóttur og Jóns Óttars Birgissonar sitja Kevin Payne, fjárfestingarstjóri hjá Pt. Capital, og Tina Pidgeon, sjálfstæður ráðgjafi sem tengist einnig bandaríska sjóðnum, í stjórn Nova í dag.