Almenna leigufélagið, segir í tilkynningu að síðustu ár hafi fréttir og umræða um hlut leigufélaga á leigumarkaði á Íslandi verið heldur misvísandi og í versta falli rangar. Markaðshlutdeild Almenna leigufélagsins á leigumarkaði sé um 4% samkvæmt nýútkominni skýrslu Íbúðalánasjóðs.

Íbúðalánasjóður segir að um 30 þúsund leiguíbúðir séu almennum leigumarkaði á Íslandi. Af þeim er hlutur leigufélaganna 16% en um 57% leigja hins vegar af einstaklingum. Með 4% markaðshlutdeild geti Almenna leigufélagið vart stýrt markaðsverði á leigumarkaði. „Öll umræða um að Almenna leigufélagið hafi drifið áfram hækkanir á leiguverði á Íslandi, eins og stundum hefur örlað á, er því úr lausu lofti gripin," segir í tilkynningu frá félaginu.

Þá er einnig bent á að Íbúðalánsjóður segi að íslenskur húsnæðismarkaður hafi einkennst af óstöðugleika undanfarna áratugi. Miklar verðsveiflur hafi haft skaðleg áhrif á húsnæðismarkaðinn en þær orsakist aðallega af ytri efnahagsaðstæðum og sveiflum í uppbyggingu húsnæðis, ásamt skorti á yfirsýn og stefnumótun. Þessar sveiflur hafi bitnað mest á lágtekjufólki sem ver stærri hluta tekna sinna í húsnæðisútgjöld en aðrir samfélagshópar.

„Almenna leigufélagið tekur undir með höfundum skýrslu Íbúðalánsjóðs sem og félagsmálaráðherra um að skortur sé á leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði fyrir hluta leigjenda. Félagslegu leiguhúsnæði og öðrum ódýrum valkostum hefur ekki fjölgað í takt við þróun húsnæðismála. Það er því gríðarlega mikilvægt að ríki og sveitarfélög bregðist sem allra fyrst við til að koma til móts við þann hóp sem ræður ekki við fasteigna- né leiguverð á almennum markaði. Það er fagnaðarefni að búið sé að veita 1.400 íbúðum stofnframlag en betur má ef duga skal. Samkvæmt skýrslu Íbúðalánasjóðs þarf stofnframlag fyrir 5 – 7.000 íbúðir til viðbótar. Almenna leigufélagið er valkostur á leigumarkaði fyrir þann hóp fólks sem kýs öruggt leiguhúsnæði, hátt þjónustustig og sveigjanleika að norrænni fyrirmynd. Félagið er sjálfstætt fasteignafélag í eigu fjölbreytts hóps fagfjárfesta og stofnanafjárfesta. Stefna Almenna leigufélagsins er að gera leigumarkaðinn á Íslandi fjölskylduvænni og traustari. Innan stjórnar félagsins hefur meðal annars verið rætt að leigja til lengri tíma en núgildandi samningar segja til um. Það ræðst meðal annars af aðkomu langtímafjárfesta á borð við lífeyrissjóði og fjármögnum félagsins til framtíðar,“ segir í tilkynningunni frá Almenna leigufélaginu.

Leigufélagið Klettur niðurgreiddi leiguverð

Þá segir jafnframt að í fréttum hafi verið rætt við leigjenda sem lýsti því hvernig leiguverð hefði hækkað eftir að Almenna leigufélagið keypti Leigufélagið Klett.

„Saga leigjandans er sönn en horfa verður á alla söguna til að fá heildarsýn á málið. Leiguverð sem umræddur leigjandi greiðir í dag er 220.000,- krónur á mánuði, en samkvæmt gögnum um meðalleiguverð frá Þjóðskrá er markaðsverð leigu fyrir íbúð af sömu stærð og staðsetningu um 265.000 krónur. Í maí 2016 keypti Almenna leigufélagið um 450 íbúðir af Leigufélaginu Kletti ehf. sem var í eigu Íbúðalánasjóðs. Söluverðið var um 10,1 milljarður króna, sem var ríflega 1,5 milljarði króna umfram bókfært virði leigufélagsins hjá Íbúðalánasjóði og hafði salan því jákvæð áhrif á rekstur sjóðsins. Þegar kaupin gengu í gegn var meirihluti íbúða Leigufélagsins Kletts í útleigu en félagið niðurgreiddi leiguverð og  tekjur stóðu því ekki undir rekstri og fjármagnskostnaði íbúðanna. Almenna leigufélagið neyddist því til að hækka leiguverð sumra íbúða en til að koma til móts við leigjendur var það gert í skrefum. En jafnvel eftir þær hækkanir var leiguverð íbúðanna enn undir almennu markaðsleiguverði," segir í tilkynningunni frá Almenna leigufélaginu.