Frá áramótum hafa ríflega 40 starfsmenn verið ráðnir til Advania en í upphafi árs auglýsti fyrirtækið eftir fjölda starfsmanna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Nýju starfsmennirnir eru flestir tölvunarfræðingar eða hugbúnaðarverkfræðingar að mennt. Flestir þeirra vinna við hugbúnaðarþróun en einnig er um að ræða önnur störf, eins og til dæmis verkefnastjórnun, ráðgjöf, viðskiptastjórnun, gæðamál og þjónustu við viðskiptavini. Á þessu ári hafa um 1.200 starfsumsóknir borist til fyrirtækisins og er enn unnið úr umsóknunum.

„Verkefnastaða okkar er góð og það er fjöldi tækifæra fyrir gott fólk. Það má búast við að um 5 – 10 starfsmenn verði ráðnir til okkar á allra næstu dögum og vikum og fljótlega munum við jafnframt huga að ráðningu sumarstarfsmanna,“ segir Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania.