Slitabú föllnu bankanna munu þurfa að greiða skatt sem nemur 40% af eignum þeirra takist þeim ekki að ljúka uppgjöri sínu með nauðasamningum sem ógna ekki greiðslujöfnuði þjóðarbúsins til lengri tíma litið og áætlun um losun hafta. Slitabúin hafa fáeinar vikur til stefnu til að ljúka slíkum nauðasamningum vilji þau komast hjá því að greiða stöðugleikaskattinn áður en hann tekur gildi. Greint er frá þessu í DV sem kveðst hafa öruggar heimildir fyrir þessu.

Þar kemur fram að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, muni gera grein fyrir frumvörpum ríkisstjórnarinnar um losun fjármagnshafta á ríkisstjórnarfundi í dag. Ekki sé hægt að slá því föstu hve stóran hluta eigna erlendir kröfuhafar föllnu bankanna muni þurfa að gefa eftir við mögulega nauðasamninga, en miðað við haftaáætlun stjórnvalda þurfi sú fjárhæð líklega að vera yfir 500 milljörðum króna. Heildareignir slitabúanna námu um 2.200 milljörðum í árslok 2014.

Greint er frá því að ríkisstjórnin hyggist leggja fram fimm eða sex frumvörp um áætlun um losun hafta. Þau verði þó ekki öll lögð fram samtímis heldur muni hluti þeirra líta dagsins ljós á haustþingi. Þá segir einnig að til standi að halda kynningu fyrir fjölmiðla um áætlunina næsta mánudag og muni Halldór Benjamín Þorbergsson hagfræðingur hafa umsjón með þeirri kynningu, en hann kynnti einnig niðurstöður skuldaniðurfærslu ríkisstjórnarinnar undir lok síðasta árs.