Sky Lagoon baðlónið á Kársnesinu í Kópavogi hagnaðist um 410 milljónir króna í fyrra en árið áður var það rekið með 9 milljóna króna tapi.

Lónið opnaði í lok apríl árið 2021 og var síðasta ár því fyrsta heila rekstrarár í sögu lónsins. Tekjur Sky Lagoon námu rúmlega 3,3 milljörðum króna og jukust um 140% milli ára. Rekstrargjöld námu rúmlega 2,8 milljörðum króna og rúmlega tvöfölduðust milli ára.

Eignir félagsins námu 1,4 milljörðum króna í lok síðasta árs og skuldir 810 milljónum króna en þar af voru aðeins tæplega 4 milljónir króna sem féllu undir langtímaskuldir. Eigið fé nam 615 milljónum króna í árslok og eiginfjárhlutfall var því 43% í lok síðasta árs. Veltufé frá rekstri nam 465 milljónum króna og handbært fé í árslok 1,1 milljarði króna.

Sky Lagoon er að 51% hluta í eigu Pursuit ehf., rekstraraðila Flyover Iceland, og 49% eigu Geothermal Lagoon ehf. Peninsula ehf. á 98,3% hlut í síðarnefnda félaginu, en Peninsula er að stærstum hluta í eigu Eyþórs Kristjáns Guðjónssonar og Gests Þórissonar. Eftirstandandi 1,7% hlutur í Geothermal Lagoon er í eigu Dagnýjar Pétursdóttur, sem var framkvmdastjóri Sky Lagoon þar til í mars á þessu ári, en hún situr í stjórn félagsins.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast veffréttaútgáfu kl. 19.30 í kvöld með því að smella á Blöðin efst á forsíðu vb.is.