42 starfsmenn Kaupþings, sem höfðu fengið lánafyrirgreiðslu vegna hlutabréfakaupa í Kaupþingi, seldu hlutabréf í bankanum í 94 tilvikum á árunum 2007 og 2008. Þessar upplýsingar eru í skýrslu PricewaterhouseCoopers sem getið er í dómsniðurstöðu vegna lána starfsmanna Kaupþings í Héraðsdómi.

Í dómnum segir orðrétt:

"Stefnandi hefur lagt fram skýrslu PricewaterhouseCoopers hf. frá 1. desember 2010 varðandi lán til starfsmanna stefnanda vegna hlutabréfakaupa í bankanum. Í skýrslunni er tekið fram að PricewaterhouseCoopers hf. hafi rannsakað starfsemi stefnanda fyrir slitastjórn stefnanda samkvæmt sérstökum samningi þar um. Fram kemur að framkvæmd hafi verið ítarleg rannsókn á hlutabréfaviðskiptum starfsmanna stefnanda og lánveitingar þeim tengdum á árunum fyrir fall bankans. Viðskipti starfsmanna hafi verið tekin til skoðunar á árunum 2007 og 2008 og meðal þeirra gagna sem rannsökuð hafi verið hafi verið listi regluvarðar yfir hlutabréfaviðskipti starfsmanna, en samkvæmt reglum stefnanda hafi starfsmönnum borið skylda til að tilkynna regluverði um öll verðbréfaviðskipti sín. Hafi regluvörður í framhaldinu tekið afstöðu til viðskiptanna með tilliti til stöðu viðkomandi og hvort viðkomandi byggi yfir innherjaupplýsingum á viðskiptadegi. Skýrsluhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að á árunum 2007 til 2008 hafi 42 starfsmenn sem fengið hafi lánafyrirgreiðslu vegna hlutabréfakaupa í 94 tilvikum selt hlutabréf í bankanum."