Heildarfjöldi farþega Flugfélags Íslands dróst saman um 2% milli ára á árinu 2008 en fjöldi farþega í áætlunarflugi var um 420 þúsund.

Þar af voru um 22 þúsund farþegar í millilandaflugi til Færeyja og Grænlands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Flugfélagi Íslands en samkvæmt henni var þetta annað stærsta ár félagsins frá upphafi þrátt fyrir 2% samdrátt farþega.

Í tilkynningunni kemur fram að flogið var til 4 áfangastaða innanlands frá Reykjavík, til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og til Vestmannaeyja. Millilandaáfangastaðir félagsins eru á Grænlandi, Kulusuk, Constable Pynt, Narsarsuaq og Nuuk auk þess sem flogið var til Færeyja.

Hlutfallslega mesta aukning farþega var á leiðinni milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja eða um 26% og flugu um 29 þúsund farþegar á þeirri flugleið með félaginu, á leiðinni til Ísafjarðar og Akureyrar stóð farþegafjöldinn nánast í stað á milli ára var um 47 þúsund á Ísafjörð og tæplega 200 þúsund á Akureyri.

Til Egilsstaða var nokkur fækkun farþega eða um 15% og segir flugfélagið það hafa verið nokkuð fyrirséð vegna loka á virkjunarframkvæmdum en farþegafjöldi á þeirri leið var um 114 þúsund á síðasta ári.