Af þeim fjármunum sem komið hafa til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans hefur 44% verið varið til hlutabréfakaupa. Samtals hafa 98 milljarðar króna komið til landsins í gegnum fjárfestingarleiðina en fyrsta slíka útboðið var haldið í febrúar á síðasta ári.

Það þýðir að rúmlega 43 milljörðum króna hefur verið varið til hlutafjárkaupa. Fjárfestar skuldbinda sig til að halda fjárfestingum í að minnsta kosti fimm ár ef þessi leið er farin og gildir það um hlutabréfakaup sem annað. Eðli málsins samkvæmt getur bæði verið um að ræða skráð og óskráð hlutabréf.

„Hlutabréfakaupin hafa sveiflast frá því að fara hæst í liðlega 60% um mitt síðasta ár niður í u.þ.b. 30% í útboðunum þremur á þessu ári,“ segir í svari Seðlabankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um hlutdeild hlutabréfakaupa í hverju útboði fyrir sig.

Greining Seðlabankans á þátttakendum í fjárfestingarleiðinni sýnir að innlendir fjárfestar eru með 37% fjárhæðanna en erlendir 63%. Við greininguna voru erlend félög í eigu innlendra aðila talin sem innlendir fjárfestar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .