Alls hafa 430 fyrirtæki og einstaklingar í atvinnurekstri samið við embætti tollstjóra um að skattskuldum þeirra yrði breytt í skuldabréf á grundvelli laga um tímabundið greiðsluuppgjör vegna vanskila á seinasta ári. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag.

Skuldabréf þessara aðila eru vaxtalaus til 5 ára og er heildarupphæði þeirra tæpir 2 milljarðar króna. Meðalfjárhæð skuldabréfanna er um 4,6 milljónir en hæsta skuldabréfið um 122 milljónir.

Snorri Olsen tollstjóri segir að þeir sem fengu greiðsluuppgjör þurfi að standa rétt að skattaskilum á tímabilinu sem um ræðir og var góður ávinningur af því við innheimtu ríkissjóðs. Á hverju ári fá einnig einstaklingar og fyrirtæki sem eru komin í vanskil með opinber gjöld að ganga frá greiðsluáætlunum um greiðslu skuldanna. Í fyrra voru gerðar rúmar 6.000 greiðsluáætlanir að sögn Snorra.

Í dag eru um 30 fyrirtæki á lokunarlista skattayfirvalda vegna hertra innheimtuaðgerða. Á þeim var slakað í kjölfar hrunsins en á árunum 2009-2011 var engum fyrirtækjum lokað þó að þau hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum.