Íbúar á höfuðborgarsvæðinu fá mikinn ábata af því að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Íbúar landsbyggðarinnar verða hins vegar fyrir miklum kostnaði ef flugvöllurinn er fluttur til Keflavíkur.

Þetta kemur fram í hagrænni úttekt Capacent á framtíðarstaðsetningu flugvallarins sem Fréttablaðið greinir frá í dag. Farið var í sérmat á samfélagslegri arðsemi af flutningi flugvallarins úr Vatnsmýri á Hólmsheiði, Löngusker eða til Keflavíkur.

Um 45 milljarða króna ábati er af því að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni og er stærsti áhrifaþátturinn í greiningunni mat á virði Vatnsmýrarinnar ef flugvöllurinn fer, metið út frá minni akstri ásamt öðrum þáttum tengdum mengun og slysum.

Flutningur til Keflavíkur er metinn hagkvæmasti kosturinn þar sem rekstrar- og byggingarkostnaður yrði lægri þar, vegna alþjóðaflugvallarins. Hins vegar yrðu íbúar landsbyggðarinnar fyrir miklum kostnaði fari flugvöllurinn til Keflavíkur vegna ferða til og frá flugvelli.

Dagur B. Eggertsson, forseti borgarstjórnar, segir í samtali við Fréttablaðið að mikilvægt sé að finna aðra mögulega flugvallarstaði.