Um síðustu helgi tóku starfsmenn tölvuleikjafyrirtækisins Gogogic þátt í alþjóðlegu leikjadjammi, Global Game Jam 2011, í fyrsta sinn á Íslandi. Global Game Jam (GGJ) er stýrt af Heimssamtökum leikjaframleiðenda (IGDA) og er eitt af stærstu leikjadjömmum innan leikjaiðnaðarins.

Keppnin er haldin í janúar hvert ár og er markmiðið að búa til tölvuleiki í kringum þema á aðeins 48 klukkustundum. Í ár var slegið nýtt met því 6500 manns frá 170 stöðum í 44 löndum um allan heim tóku þátt. Alls voru um 1500 leikir búnir til. Eins og á við um flesta leiki sem gerðir eru í djammi skortir leikina smá fágun en bjóða þó upp á nýjan leikjastíl.