Milestone tapaði 5,8 milljörðum króna eftir skatta á fjórða ársfjórðungi. Félagið hagnaðist hins vegar um 21,3 milljarða króna á síðasta ári en heildartekjur félagsins voru 56 milljarðar á árinu. Heildareignir Milestone voru 392 milljarðar í árslok 2007. Eigið fé nam 69,5 milljörðum króna þann 31. desember 2007.

Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 48,8%. Eiginfjárhlutfall samstæðu var 18% og eiginfjárhlutfall móðurfélags var 73% í árslok 2007. Í lok tímabilsins var samstæðan með jafnvirði 379 milljarða króna í eignastýringu. Allar skráðar eignir Milestone eru færðar á markaðsvirði í bókum félagsins segir í tilkynningu þess.

„Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður var rekstur dótturfélaga Milestone í fjármálaþjónustu góður á árinu. Rekstrarniðurstaðan 2007 staðfestir styrk og sveigjanleika fyrirtækisins og Milestone hefur fest sig í sessi sem norræn fjármálasamstæða. Eignir fyrirtækisins hafa meira en tvöfaldast frá 2006 og hagnaður er góður í ljósi talsverðra sveiflna á fjármálamörkuðum. Trú mín á norrænan fjármálamarkað er mikil þrátt fyrir að erfiðleikar hafi steðjað að fjármálafyrirtækjum að undanförnu. Ég er sannfærður um að það mun hafa jákvæð áhrif á Milestone til langs tíma að samþætta starfsemi þess frekar og það mun auðvelda okkur að styrkja stöðu okkar á norrænum fjármálamarkaði," segir Karl Wernersson, stjórnarformaður í tilkynningu.

Milestone og dótturfélög eiga samtals 10,2% hlut í sænska fjárfestingabankanum Carnegie sem er skráður í OMX Nordic Exchange í Stokkhólmi. Félög innan samstæðu Milestone eru stærstu hluthafar í Carnegie og Anders Fällman, forstjóri dótturfélags Milestone, var kosinn stjórnarformaður Carnegie á fjórða ársfjórðungi.

Milestone tilkynnti í desember um kaup á 75,9% hlut í KIB bankanum í Makedóníu.

Milestone er norræn fjármálasamstæða með áherslu á tryggingaekstur, bankastarfsemi og eignastýringu. Innan samstæðunnar eru átta fjármálafyrirtæki í meirihlutaeigu Milestone sem lúta viðeigandi eftirliti á Norðurlöndum og í Lúxemborg. Dregið hefur verulega úr vægi íslenskra fyrirtækja í samstæðu Milestone þar sem 75% af eignum fyrirtækisins eru á erlendri grundu. Á meðal dótturfélaga Milestone eru tryggingafélögin Sjóvá og Moderna, bankarnir Askar Capital og Banque Invik auk eignastýringafélagsins Invik Funds.