Fagfjárfestasjóður á vegum fjármálafyrirtækisins Gam Management hf. (Gamma) vill reisa fjögur til fimm þúsund fermetra húsnæði á bílastæðinu fyrir aftan Laugaveg 77. Unnið er að hönnun byggingarinnar og er þar gert ráð fyrir 50-60 íbúðum. Framkvæmdir gætu hafist í haust og heildarkostnaður verkefnisins er um tveir milljarðar króna.

„Þetta er í skipulagsferli eins og staðan er núna og skipulagsyfirvöld hafa tekið mjög vel í þetta,“ segir Gísli Hauksson, forstjóri Gamma, í samtali við Markaðinn , fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti.

„Við stefnum að því að reisa þarna íbúðarhúsnæði og þar á meðal minni íbúðir sem henta yngra fólki. Planið er að hafa þær á viðráðanlegu verði,“ segir Gísli.

Gamma hefur verið nokkuð stórtækt á fasteignamarkaðnum undanfarna mánuði. Leigufélag, sem er í rekstri sjóða Gamma, á nú um 350 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en stefnir á að bæta við 850 íbúðum á næstu þremur árum.