FL Group hefur fjárfest í fjórum fasteignaverkefnum í Bandaríkjunum fyrir 50 milljónir bandaríkjadala að því er kemur fram í frétt félagsins. Verkefnin verða unnin í samstarfi við Bayrock Group sem er alþjóðlegt fasteignafélag staðsett í Bandaríkjunum.


Þessi verkefni eru:

? Trump Soho ? Fimm stjörnu hótel í Soho hverfinu á Manhattan í New York í samstarfi við Donald Trump og Sapir Organization.
? Trump Lauderdale ? Fimm stjörnu hótel á strönd Fort Lauderdale í samstarfi við Donald Trump.
? Whitestone New York ? Þróun 13 ekru landsvæðis í Whitestone, Queens. Bayrock mun í framhaldinu byggja fjölda lúxus íbúða á svæðinu.
? Camelback ? Fimm stjörnu hótel í Phoenix.

Áætlað er að verkefnunum verði lokið innan þriggja ára. Fjárfestingin verður fjármögnuð með eigin fé og lánsfé.

Alfa Investment Consulting hafði milligöngu um viðskiptin og veitti Bayrock Group ráðgjöf.

FL Group hefur einnig gert samkomulag við Bayrock Group um jafna hlutdeild fyrirtækjanna í sameiginlegu félagi sem ætlað er að fjárfesta í alþjóðlegum verkefnum á sviði fasteignaþróunar.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group segir í tilkynningu: ?Þetta er mjög spennandi verkefni, sem fellur vel að stefnu FL Group um að leita eftir nýjum ögrandi og álitlegum verkefnum. Fasteignamarkaðurinn er spennandi vettvangur, þar sem mikil samkeppni ríkir en hann býður jafnframt upp á mörg og margvísleg tækifæri. Við hlökkum til samstarfsins við þetta virta fyrirtæki, bæði á bandaríkjamarkaði og alþjóðlegum mörkuðum.?

Tevfik Arif, stjórnarformaður Bayrock Group, segir í sömu tilkynningu: ?Við erum mjög ánægð með hafa náð samkomulagi við FL Group um þróun þessara verkefna og hlökkum til að starfa með þeim góða hópi sem þar vinnur í framtíðinni.?