Atvinnuástandið á Suðurnesjum eftir hrun var lengi áhyggjuefni, enda jókst atvinnuleysið þar meira en á öðrum svæðum á landinu í kjölfar hrunsins. Veturinn 2010 var 17% atvinnuleysi í Reykjanesbæ og Sandgerði, en nokkru minna í Garði og Vogum. Best var atvinnuástandið í Grindavík, þar sem var 9% atvinnuleysi.

Ástandið byrjaði að batna af ráði árið 2012 og hefur atvinnuleysi minnkað hratt síðan. Í desember var atvinnuleysi í Reykjanesbæ aðeins 3,4% en til samanburðar var atvinnuleysi á landinu öllu 2,9%. Atvinnuleysi er þrálátast á Sandgerði, þar sem það mældist 4,8% í desember.

417 manns voru á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum í desember, en þeir voru 1.780 í febrúar 2010. 30% fleiri íbúar Reykjanesbæjar og 24% fleiri Grindvíkingar voru starfandi í desember síðastliðnum en í janúar 2010.

1.000 manns vinna við framkvæmdirnar

Nú er staðan sú að fjölbreytt uppbygging á Suðurnesjum kallar á stóraukinn fjölda vinnandi einstaklinga. Langstærsti vaxtarbroddur atvinnulífsins á Suðurnesjum um þessar mundir eru Keflavíkurflugvöllur og ferðaþjónustan. Í heildina starfa nú 4.800 manns við Keflavíkurflugvöll, en fréttir bárust af því í síðustu viku að um 1.500 störf myndu skapast næsta sumar í tengslum við aukin umsvif á flugvellinum.

Mikil uppbygging er nú að hefjast við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli og samkvæmt upplýsingum frá Isavia er áformað aðum 1.000 manns vinni við framkvæmdir við fyrsta áfanga stækkunar, sem mun taka um það bil fjögur ár.

Þegar fyrsta áfanga er  lokið, sem gert er ráð fyrir að verði árið 2022, munu líklega um 10.000 manns þurfa að vinna við flugvöllinn ef fjöldi starfa helst í hendur við fjölgun farþega. Það er fjölgun um 5.200 manns frá því sem nú er, eða um 700-800 manns á ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .