Hagstofa Íslands spáir 3,9% hagvexti í ár, en 5,3% á næsta ári í nýrri þjóðhagsspá sinni. Hagstofan spáði fyrr á árinu 2,6% hagvexti fyrir árið 2021 og 4,8% fyrir 2022.  Aukin einkaneysla og fjármunamyndun drífur hagvöxtinn áfram, samkvæmt spánni.

Í spánni er gert ráð fyrir 3,8% aukningu einkaneyslu frá fyrra ári og að hún verði 4,9% á næsta ári. Neysla Íslendinga erlendis hefur aukist til muna með bólusetningum og afléttingum ferðatakmarkana. Ráðstöfunartekjur heimilana jukust í faraldrinum, þrátt fyrir aukið atvinnuleysi. Aukinn sparnaður heimilanna á síðasta ári mun styðja við einkaneysluvöxt næstu ára, samkvæmt spá Hagstofunnar.

Talið er að fjárfestingar aukist um 11,9% í ár en atvinnuvegafjárfesting og opinber fjárfesting aukist þar mest. Hins vegar má gera ráð fyrir 3,2% samdrætti í fjárfestingum á næsta ári. Auk þess spáir Hagstofan að samneyslan aukist um 2,4% í ár og 1,3% á næsta ári, en hún jókst um 4,5% í fyrra.

Minnkandi atvinnuleysi

Búist er við að atvinnuleysi verði að meðaltali 6,5% í ár og 5,3% á því næsta. Viðsnúningur hefur orðið á vinnumarkaði frá byrjun sumars í kjölfar bólusetningar og tilslakana samkomutakmarkana. Jafnframt hafa aðgerðir stjórnvalda dregið úr atvinnuleysi þar sem fyrirtæki fengu ráðningastyrki. Hagstofan spáir að atvinnuleysi verði komið niður í 4,5% árið 2024.

Verðbólga hjaðni á næsta ári

Verðbólguþrýstingur er nokkur, m.a. vegna húsnæðis- og launahækkana en einnig vegna verðhækkana erlendis sem rekja má m.a. til flöskuhálsa í virðiskeðjum og annarra raskana á framleiðslu vegna kórónuveirufaraldursins. Reiknað er með að verðbólga verði 4,4% í ár að meðaltali. Á næsta ári er reiknað með að verðbólga hækki um 3,3% að meðaltali en verði 2,6% að meðaltali árið 2023 og nálgist verðbólgumarkmið í kjölfarið.