*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 28. nóvember 2011 18:35

68% af bókatitlum prentaðir á Íslandi

Færri bækur prentar hér á landi heldur en í fyrra.Flestar barnabækur prentaðar erlendis.

Ritstjórn

Bókasamband Íslands hefur gert könnun á prentstað íslenskra bóka sem getið er í Bókatíðindum Félags íslenskra bókaútgefenda 2011. Fjöldi titla sem prentaðir eru innanlands dragast saman um rúmlega 3 prósentustig milli ára en árið 2010 var 71% bóka prentaðar innanlands.

Frá þessu er greint á vef ASÍ. Heildarfjöldi prentaðra bókatitla er 690 í Bókatíðindunum í ár en var 710 árið 2010.

Á vef ASÍ kemur fram að skoðað hafi verið hvert hlutfall prentunar innanlands og erlendis er eftir flokkum. Þar kemur fram að stór hluti barnabóka er prentaður erlendis en það er m.a. vegna þess að samprent er algengt í útgáfu barnabóka þar sem prentað er sameiginlega fyrir mörg lönd.

Stærsta hlutfallið af bókum sem er prentað hér á landi eru skáldverk, íslensk og þýdd. Af 183 bókum eru 156, eða 86%, prentaðar á Íslandi en 26, 14%, prentað erlendis.

Í flokki fræðibóka, bækur almenns efnis og listir eru alls 203 bækur. 148, eða 73%, þeirra eru prentaðar á Íslandi og 55 prentaðar erlendis eða 27%.

Svipað hlutfall er í flokknum saga, ættfræði, ævisögur, handbækur, matur og drykkur. Þar eru samanlagt 110 bækur en 83 þeirra eru prentaðar hér á landi eða 75%. Þá eru 27 prentaðar erlendis eða 25%.

Sem fyrr segir er stærsti hluti barnabóka, hvort sem er íslenskar eða þýddar, prentaðar erlendis. Í þessum flokk eru 195 bækur í bókatíðindum og 112 þeirra prentaðar erlendis, eða 57%, á meðan 83 bækur er prentaðar hér á landi, eða 43%.