Sjö hundruð félög hafa ekki skilað ársreikningi í þrjú ár í röð. Skúli Jónsson, sviðsstjóri skráasviðs hjá Ríkisskattstjóra, segir í samtali við Fréttablaðið í dag skynsamlegt að setja kraft í aðgerðir gegn slíkum fyrirtækjum til að losna við þau sem ekki standa við skyldur sínar eða eru hætt starfsemi.

„Félög sem ekki hafa fyrir því að skila inn ársreikningi þrjú ár í röð hafa ekki mikinn tilverurétt. Ef þau eru í einhvers konar vafasömum rekstri sem þau þora ekki að láta aðra vita um þá er samfélagið betur sett með að þau hverfi úr fyrirtækjaflórunni," segir hann.

Fjallað er um kennitöluflakk fyrirtækja í Fréttablaðinu í dag. Þar er m.a. haft eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, að unnið sé eftir tillögum sem starfshópur skilaði af sér fyrir um ári og á að sporna gegn kennitöluflakki. Hún telur ólíklegt að frumvarp gegn kennitöluflökkurum verði lagt fram á Alþingi í vor.