Í könnun sem Gallup gerði nýlega fyrir Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar kemur fram að 62,6% íbúa á Akureyri og nágrenni (póstnúmer 600, 601 og 603) eru hlynntir uppbyggingu stóriðju í Eyjafirði, 26,3% eru andvígir en 11,1% taka ekki beina afstöðu. Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar eingöngu fyrir Akureyri (póstnúmer 600 og 603) er hlutfall þeirra sem eru fylgjandi stóriðju hærra eða 66,1% en andvígum fækkar í 23,5% á meðan fjöldi þeirra sem taka ekki beina afstöðu helst svipaður. Ef aðeins eru taldir með þeir sem taka afstöðu þá eru tæp 74% Akureyringa eru hlynntir uppbyggingu stóriðju í Eyjafirði en rúm 26% eru á móti.

Helstu ástæður viðhorfs til stóriðju voru kannaðar og nefna þeir sem eru andvígir helst náttúruverndarsjónarmið og mengun, en fylgjendur nefna helst atvinnusköpun og fjölgun íbúa.

Einnig var spurt sérstaklega hversu hlynntir þátttakendur væru staðsetningu álvers í Eyjafirði ef ákveðið yrði að byggja eitt álver í viðbót á Íslandi. Fylgjandi voru 55,4%, andvígir 36% en 8,7% tóku ekki afstöðu. Ef aðeins eru skoðaðir þeir sem tóku afstöðu þá voru 60,6% fylgjandi en 39,4% andvígir. Aftur kom fram munur ef niðurstöðurnar voru greindar fyrir Akureyri sérstaklega, en þá reyndust 63,6% fylgjandi og 36,4% andvíg.

Byggt á heimasíðu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar