Söfnun viljayfirlýsinga í hlutafjárútboði SÍF hf. er nú lokið. Safnað var viljayfirlýsingum vegna sölu hlutafjár að markaðsvirði 4.840 milljónir króna (55 milljónum evra) og sóttust fjárfestar eftir að kaupa hlutafé fyrir 8.426 milljónir króna (96 milljónir evra). Umframeftirspurn við söfnun viljayfirlýsinga var því 74% segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í heildina var nýtt hlutafé að markaðsvirði 230 milljónir evra til sölu í útboðinu eða 20.240 milljónir króna miðað við að evran kosti 88 krónur. Áður en söfnun viljayfirlýsinga hófst lágu fyrir skuldbindingar kaupenda að 15.400 milljónum króna (175 milljónum evra).

Útboðsgengi og heildarfjárhæð

Á fundi sínum þann 24. nóvember 2004 ákvað stjórn SÍF hf. í samráði við Kaupþing Búnaðarbanka hf., sem hefur umsjón með útboðinu, útboðsgengið 4,80 krónur fyrir hverja krónu nafnverðs. Fjárfestar lýstu vilja sínum til þess að kaupa hlutafé að markaðsvirði 6.235.050.000 kr á útboðsgenginu eða hærra gengi. Var ákveðið að selja nýtt hlutafé að nafnverði 1.008.333.333 krónur eða 4.839.999.998 krónur að markaðsverði.

Úthlutun áskrifta 24. nóvember

Áskriftum verður úthlutað þann 24. nóvember 2004 til þeirra aðila sem hafa lýst yfir vilja til þátttöku í útboðinu. Umsjónaraðili útboðsins mun tilkynna fjárfestum um úthlutun áskrifta fyrir klukkan 17.00 þann dag og skal áskriftarskuldbindingum skilað til umsjónaraðilans eigi síðar en klukkan 19.00 þann 24. nóvember 2004.