Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, segist líta björtum augum á framtíðina. Horft fram á veginn er útlitið til skemmri tíma litið gott í Bandaríkjunum og Suður Ameríku á sama tíma og Evrópa sé því miður í hægagangi m.a. vegna óróans í Úkraínu. Marel hefur birt uppgjör fyrir fyrsta fjórðung Í uppgjörinu kemur fram að EBITDA, leiðrétt fyrir kostnaði vegna hagræðingaraðgerða var 11,6 milljónir evra, sem er 7,5% af tekjum. EBITDA var 8,1 milljón evra sem er 5,2% af tekjum. Á fyrsta fjórðungi í fyrra var EBITDA 16,9 milljónir evra.

Árni Oddur segir að til viðbótar við gott útlit í Bandaríkjunum og Suður-Ameríku þá sé útlitið gott á nýmörkuðum. „Á nýmörkuðum var óvenjumikill órói á fyrsta fjórðungi. Það breytir engu um langtímahorfur á nýmörkuðum. Þær eru góðar áfram. Þar er búið að fjárfesta mikið í smávöruverslunum og skyndibitakeðjum sem þarf að sinna. Heilt yfir eru markaðsaðstæður að batna og við ætlum að sinna því,“ segir hann.

Árni Oddur segir að hagræðingaraðgerðir hjá fyrirtækinu séu líka komnar vel af stað. „Við kynntum í upphafi árs markmið okkar um að verða skilvirkara  og betra félag og það plan gengur samkvæmt áætlun. Á fyrsta ársfjórðungi  gengum við ákveðið til verks og erum t.d.  búin að fækka um 75 starfsmenn og þar af eru 25 yfirmenn. Þetta mun leiða til þess að kostnaður fyrirtækisins mun lækka um 3,5 milljónir evra á ári,“ segir hann.

Þá segir Árni Oddur að Marel hafi fengið til liðs við sig ráðgjafafyrirtækið Alixpartners. „Sem er mjög þekkt ráðgjafafyrirtæki sem ég hef unnið með,“ segir Árni Oddur. Árni Oddur segir að áætlun félagsins um aukna skilvirkni sé verði tvíþætt, að gera Marel skilvirkara gagnvart markaðnum og ná niður kostnaði. Aðkoma AlixPartners á þessum tímapunkti mun hjálpa Marel að ná þessum  markmiðum. Hann segir að Marel hafi gefið út tvö markmið, annars vegar fyrir árið í ár og svo allt til ársins 2017. Þegar horft er til lengra markmiðsins að þá sjái stjórnendu Marel fyrir sér enn frekari hagræðingaraðgerðir og sóknarfæri á mörkuðum en í byrjun ársins.

Gengi hlutabréfa í Marel hafði lækkað um rúm 8% í viðskiptum í Kauphöll Íslands á hádegi daginn eftir að uppgjörið var kynnt. Árni Oddur veltir því ekki sérstaklega fyrir sér. „Grundvöllurinn að hlutabréfamarkaðnum eru ólíkar skoðanir og hann bara talar sínu máli. Við höfum bara það skýra markmið að auka virði félagsins,“ segir Árni Oddur.