Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að þrefalda framlög til þróunarsamvinnu við stjórnvöld á Sri Lanka og verður alls 75 milljónum króna varið til uppbyggingarstarfs þar í landi á þessu ári á vegum Þróunarsamvinnstofnunar Íslands (ÞSSÍ). Stofnunin mun starfa með stjórnvöldum á Sri Lanka að þeim verkefnum sem þau telja brýnust. Aukin framlög Íslands til þróunarsamstarfs við stjórnvöld á Sri Lanka gera ÞSSÍ kleift að hefjast handa fyrr en áætlað var auk þess sem unnt er að ráðast í stærri verkefni.

Samkvæmt samþykktum áætlunum var ráðgert að ÞSSÍ veitti 25 milljónum
króna til þróunarsstarfs á Sri Lanka árið 2005 en ríkisstjórnin samþykkti á
fundi í morgun að hækka framlagið um 50 milljónir. Mikil neyð ríkir á Sri
Lanka eftir náttúrhamfarirnar sem riðu yfir Suður-Asíu nýverið og munu
næstu mánuðir reyna mikið á getu stjórnvalda þar í landi til að endurreisa
efnhagslífið.

Í samræmi við samþykkt stjórnar ÞSSÍ frá því 2. desember 2004 og að
beiðni stjórnvalda á Sri Lanka var fyrirhugað að þróunarstarf
stofnunarinnar yrði í fyrstu mest á sviði sjávarútvegs. Í ljósi
náttúruhamfaranna má hins vegar vænta áherslubreytinga enda eru öll
verkefni sem ÞSSÍ tekur að sér unnin á forsendum samstarfslandanna, í anda stefnu stjórnvalda þar og með hliðsjón að starfi annarra
þróunarsamvinnustofnanna í landinu. Fulltrúi ÞSSÍ mun fara út til viðræðna
við yfirvöld fljótlega.

Fátæk fiskimannasamfélög á Sri Lanka urðu einna verst úti í
hamförunum. Tala látinna er komin yfir 30 þúsund, um 3 þúsund manns er enn saknað, 100 þúsund hús eru ýmist skemmd eða ónýt og hátt í 1 milljón manna er heimilislaus og hefst við í neyðarskýlum. Vatnsból eru víða menguð og matur er af skornum skammti.

Fyrir náttúruhamfarirnar voru um 27 þúsund bátar til í landinu sem
notaðir voru til fiskveiða, þar af var um helmingur vélbátar, en talið er
að allt að 80% þeirra hafi eyðilagst eða laskast í flóðbylgjunni á þeim
svæðum sem verst urðu úti. Þá er lítið sem ekkert er eftir af 10 af 15
fiskihöfnum og gera má ráð fyrir að bátasmiðjur og fiskvinnslustöðvar sem
flestar eru við ströndina hafi orðið fyrir skemmdum. Um 250 þúsund manns
komu beint eða óbeint að greininni og um 1 milljón manna hafði lifibrauð af
fiskveiðum. Sjávarútvegur var um 2,7% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið
2000.