Evrópusambandið hefur kallað eftir 750 milljarða evru láni eða um 113,8 billjónir íslenskra króna til að fjármagna björgunaraðgerðir vegna kórónaveirunni. Framkvæmdastjórn ESB varaði við að ef ekki yrði tekið til mótaðgerða gætu myndast varanlegar sprungur í efnahag Evrópusvæðisins, samkvæmt grein Financial Times .

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hefur lagt áherslu á að þróa fjármálastefnu ESB svo að sambandið geti sótt fordæmalausar fjárhæðir frá fjármagnsmörkuðum. Meirihluti lánsins fer til bágborinna aðildarlanda í formi styrkja.

Von der Leyen ætlar einnig að innleiða nýja skatta og álögur til að geta greitt lánið til baka á næstu áratugum. Skattlagningin mun til að mynda ná til tæknirisa og kolefnislosunar en markmiðið er að afla tugi milljarða evra ár hvert.

Áætlanir forsetans koma í kjölfar sameiginlegrar tillögu Þýskalands og Frakklands í síðustu viku en þau studdu björgunarsjóð að andvirði 500 milljarða dollara til aðildarríkja sem hafa orðið illa úti vegna faraldursins. Von der Leyen virðist hafa jafnað tillögu stórríkjanna að viðbættum 250 milljörðum evra.

Upphæðin var staðfest af Paolo Gentiloni, framkvæmdastjóra efnahagsmála hjá ESB, á Twitter fyrr í dag. Hann sagði að björgunarsjóðurinn væri evrópskur vendipunktur í baráttunni gegn fordæmalausri krísu.

Norðurríki ESB vilja þó takmarkanir á notkun lánsfjármagns í styrki en stjórnvöld í Ítalíu og Spáni hafa ýtt á eftir meiri samstöðu og varað við því að efnahagsleg umgjörð ESB væri hagstæðari ríkari þjóðum sambandsins sem hafa efni á veigamiklum örvunaraðgerðum.