Um 91% Íslendinga telja efnahagsaðstæður hér á landi mjög slæmar. Um 77% svarenda í sömu könnun telja hinsvegar fjárhag heimilis síns góðan, eða um fjórir af hverjum fimm. Vísbending greinir frá þessu í nýjasta tölublaði sínu sem kom út í dag. Um er að ræða könnun sem Evrópusambandið lét gera í nóvember síðastliðnum.

Í Vísbendingu segir að niðurstaða aðspurðra Íslendinga um hug þeirra til efnahagsmála sé á svipuðum stað og hjá Búlgaríu, Ungverjalandi og Litháen.

Þeir Íslendingar sem eru í námi telja síst að fjárhagur þeirra sé frekar slæmur, eða 9% á móti 18-20% þeirra sem hafa lokið námi. Námsmenn segja einnig oftar að fjárhagurinn sé frekar góður, eða 68% þeirra á móti 52-60% þeirra sem hafa lokið námi.

„Fjárhagur heimila þeirra sem eru atvinnulausir er verstur, en aðeins 58% atvinnulausra segja fjárhag sinn góðan á móti 67-87% þeirra sem eru ekki atvinnulausir. Flestir telja að fjárhagur heimilisins muni haldast óbreyttur næstu 12 mánuði, eða 65% svarenda, á meðan 23% telja hann eiga eftir að batna og 10% telja að hann muni versna. Meðal íbúa Evrópusambandslandanna 27 eru ívið fleiri en á Íslandi sem telja að fjárhagur heimilisins muni versna á næstu 12 mánuðum, eða að meðaltali 19% svarenda,“ segir í Vísbendingu.

Úr Vísbendingu. Stækka má myndina með því að smella á hana.

Úr Vísbendingu
Úr Vísbendingu
© Aðsend mynd (AÐSEND)


„Það sem mesta athygli vekur er hve jákvæð staðan var miðað við önnur Evrópulönd. Íslendingar áttu almennt auðveldara með að borga reikninga en margar aðrar þjóðir. Íslendingar koma næst á eftir Norðurlöndunum, Þýskalandi, Hollandi og Lúxemborg. Hlutfall þeirra sem hafa aldrei eða næstum aldrei átt í vandræðum með að borga reikninga er á bilinu 24-89% eftir löndum og hlutfall svarenda innan Evrópusambandslandanna 27 er að meðaltali 61%, eins og sjá má á mynd,“ segir í Vísbendingu.

„Skýringuna á þessu kann að vera að leita í því hve lán margra hafa verið fryst.“