*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 13. maí 2018 10:02

78% lægri hagnaður hjá Jarðborunum

Stærsti eigandi Jarðborana eru með hlut sinn félaginu í söluferli.

Ritstjórn
Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri ON og Sigurður Sigurðsson forstjóri Jarðborana sem skrifa undir verksamning um boranir á Hengilsvæðinu sumarið 2017.
Aðsend mynd

Hagnaður Jarðborana hf. dróst saman um 78% í fyrra og nam 67 milljónum króna árið 2017 miðað við 301 milljónar krónu hagnað árið 2016. Rekstrartekjur drógust saman, úr 6,2 milljörðum króna árið 2016 í 4,4 milljarða árið 2017 eða um 27%.

Ólafur Þór Jóhannesson, stjórnarformaður Jarðborana, segir samt að staða fyrirtækisins sé góð. „Horfurnar eru með ágætum og verkefnastaðan er nokkuð góð,“ segir Ólafur. Gera megi ráð fyrir sveiflum milli ára í rekstrinum. Jarðboranir gerðu samninga um boranir á Nýja-Sjálandi, Djibouti og framhald borana á Hengilssvæðinu í fyrra.

Eignir Jarðborana námu 6,9 milljörðum og eigið fé 3,2 milljörðum kr. um áramótin. SF III, eigandi 81% hlut í Jarðborunum, er með hlutinn í söluferli. SF III er í rekstri Stefnis en í eigu Samherja og nokkurra lífeyrissjóða. Félagið keypti hlutinn af Íslandsbanka árið 2012 á 2,4 milljarða króna.