Ákveðið hefur verið að ráðast í umtalsverða stækkun og breytingar á Bláa Lóninu - heilsulind. Framkvæmdirnar felast í að búnings- og baðaðstaða heilsulindarinnar verður stækkuð og endurhönnuð. Við breytingu búnings- og baðaðstöðu er áhersla lögð á að aðstaðan verði þægilegri og baðgestir fái aukið rými.

Í frétt á heimasíðu Bláa Lónsins kemur fram að breytingar verða jafnframt gerðar á núverandi veitingasal og nýr og glæsilegur 250 manna veislu- og veitingasalur tekinn í notkun. Úrval veitinga verður aukið og áhersla lögð á að mæta mismunandi þörfum gesta hvað varðar veitingar. Með breytingum mun aukið úrval veitinga bjóðast gestum sem hafa skemmri tíma auk þess sem gestum, sem hafa rýmri tíma, mun standa til boða að njóta veitinga í nýjum veitingasal. Nýi veitingasalurinn mun einnig nýtast fyrir viðburði t.d. árshátíðir og annan mannfagnað. Auk viðburða sem tengast ráðstefnu- og hvatahópum.

Verslun verður stækkuð og skrifstofu- og starfsmannaaðstaða og geymslurými aukin. Alls nemur stækkun húsnæðisins um 3000 fm og mun heilsulindin ríflega tvöfaldast að stærð frá því sem nú er. Þá verður baðlónið stækkað um helming. Með stækkun baðlóns eykst rými gesta auk þess sem tækifæri skapast til að auka fjölbreytni þeirrar þjónustu sem er í boði.

Arkitektahönnun verður sem fyrr í höndum VA Arkitekta undir stjórn Sigríðar Sigþórsdóttur, aðalhönnuðar Bláa Lónsins. Verkfræðihönnun, verkefnisstjórn og verkeftirlit verður í höndum verkfræðistofanna Fjarhitunar, Rafteikningar og Verkfræðistofu Suðurnesja.

Áætluð verklok eru vorið 2007. Kostnaðaráætlun verkefnisins er 800 mkr.