Í könnun MMR, sem lauk 18. desember sögðust 47,8% þeirra sem tóku afstöðu vera ánægð með störf forsetans samanborið við 54,8% í könnun sem lauk 7. desember. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 25,2% vera óánægð en 26,9% sögðust hvorki vera ánægð né óánægð með störf forsetans.

Ánægja með störf Ólafs Ragnars sem forseta er mismunandi eftir menntunarstigi. Fólk sem lokið hefur starfsnámi er ánægðast með störf forsetans. Alls sögðust 66% þeirra vera ánægð eða mjög ánægð með störf hans. Þeir sem hafa lokið háskólanámi eru óánægðastir með störf hans en 37% þeirra sögðust ánægðir eða mjög ánægðir með störf forsetans.

Ánægja með störf forsetans er líka mjög misjöfn eftir því hvaða stjórnmálaflokka fólk styður. Um 81% þeirra,sem sögðust myndu kjósa Framsókn ef kosið væri í dag, voru ánægð eða mjög ánægð með störf forseta. Af þeim sem sögðust styðja Sjálfstæðisflokkinn voru 66% ánægðir eða mjög ánægðir með störf Ólafs Ragnars.

Kjósendur Samfylkingarinnar eru óánægðastir með störf forsetans. Um 18% þeirra sögðust ánægðir eða mjög ánægðir með störf forsetans. Hjá kjósendum Vinstri Grænna var þetta hlutfall 25%.

Úrtakið í könnun MMR voru einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Alls svöruðu 1.010 einstaklingar könnuninni, sem fór fram dagana 15. til 18. desember.

Spurt var: „Hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) ert þú með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta Íslands?“ Svarmöguleikar voru: Mjög ánægð(ur), ánægð(ur), hvorki ánægð(ur) né óánægð(ur), óánægð(ur), mjög óánægð(ur) og veit ekki/vil ekki svara. Samtals tóku 97,1% afstöðu til spurningarinnar.