Alls 73% Reykvíkinga vilja hafa Reykjavíkurflugvöll áfram í Vatnsmýri og ríflega 90% íbúa á landsbyggðinni eru einnig þeirrar skoðunnar. Heildarstuðningur þjóðarinnar við núverandi staðsetningu flugvallarins er 82%. Þetta eru niðurstöður könnunar Gallup og var greint frá þessu í hádegisfréttum RÚV. Gallup gerði síðast sambærilega könnun fyrir átta árum en þá vildu 55% þjóðarinnar halda staðsetningunni óbreyttri.

Stuðningurinn er þó misjafn innan einstakra hópa. Konur vilja frekar hafa flugvöllinn áfram á sama stað en karla. Þá er einnig töluverður munur eftir menntun en 90% þeirra sem eru aðeins með grunnskólapróf vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýri, en 70% þeirra sem eru með háskólapróf. Þá vilja rúmlega 90% kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þingkosningunum halda staðsetningunni óbreyttri en um 60% kjósenda Samfylkingarinnar og Pírata eru þeirrar skoðunar.

Þeir sem vildu að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni voru auk þess spurðir hvar flugvöllurinn ætti að vera. Frá síðustu könnun fyrir átta árum hefur stuðningurinn aukist við að flytja hann til Keflavíkur, 65% þeirra vildu það nú en 54% fyrir átta árum. Þá nefndu 15% Hólmsheiði og annað eins Löngusker.