Ef verkfall lækna og skurðlækna verður samþykkt á næstu dögum gætu allt að 850 læknar um allt land lagt niður störf í október. Í samtali við RÚV segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins að læknar muni gæta þess að ógna ekki öryggi með verkfallsaðgerðum.

Í gærkvöldi slitnaði upp úr fundi samninganefnda Læknafélagsins, Skurðlæknafélagsins og ríkisins en Þorbjörn segir ljóst að samninganefnd ríkisins hafi ekki umboð til að koma til móts við kröfur lækna. Því verði næstu skref að leita eftir umboði lækna til að fara í verkfall sem myndi hefjast í október. Hann segir jafnframt að um þriðjungur lækna verði við störf hverju sinni komi til verkfalls og því verði öryggi ekki ógnað með verkfallsaðgerðunum.