Fimm fyrrum framkvæmdastjórar Landsbankans fengu samtals 145,3 milljónir króna frá bankanum á síðasta ári í laun og uppsagnargreiðslur. Framkvæmdastjórarnir fimm fengu samtals 74,5 milljónir króna í laun og 70,8 milljónir króna í greiðslur vegna uppsagna þeirra. Landsbanki Íslands birti ársuppgjör sitt fyrir síðasta ár í dag.

Þá kemur fram að Ásmundur Stefánsson, sem gegndi starfi bankastjóra Landsbankans fyrstu fimm mánuði ársins 2010, fékk sex milljónir króna í laun á því ári. Kostnaður bankans vegna starfsloka hans er sagður vera 9,3 milljónir króna.

Ef um greiddan uppsagnarfrest er að ræða þýðir það að Ásmundur fékk hátt í átta mánaða uppsagnarfrest hjá bankanum. Allur kostnaður vegna starfsloka fyrrum starfsmanna bankans sem teygir sig inn á árið 2011 er bókfærður í ársreikningi ársins 2010.