World Class hefur sagt upp 90 starfsmönnum og munu uppsagnirnar taka gildi um áramótin að því er RÚV greinir frá.

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri og eigandi World Class, segir að öllum starfsmönnum sem voru í lægra stafshlutfalli en 70% hafi verið sagt upp þar sem hlutabótaleiðin nái ekki til þeirra. Áður var 50 starfsmönnum sagt upp í byrjun nóvember.

Björn segir World Class hafa orðið af um 1,3 milljarða króna tekjum í heimsfaraldrinum. Því hafi uppsagnirnar að nú því miður verið það eina í stöðunni. Eftir uppsagnirnar eru um 200 starfsmenn eftir hjá fyrirtækinu. Hann vonast til að hægt verði að endurráða starfsfólkið þegar takmörkunum verður aflétt.

Björn hefur verið áberandi í gagnrýni sinni á sóttvarnarráðstafanir og telur líkamsræktarstöðvum mismunað. Sér í lagi gagnvart sundlaugum sem megi taka á móti gestum en líkamsræktarstöðvar ekki ekki. Hann segir World Class auðveldlega geta fylgt reglum á borð við fjarlægðartakmörk, grímunotkun og sótthreinsun tækja og annars búnaðar.

World Class veltu um 3,8 milljörðum króna árið 2019 og högnuðust um 562 milljónir króna. Í lok árs 2019 nam eigið fé félagsins 1,6 milljörðum króna, skuldir 4,4 milljörðum og eignir um 6 milljörðum króna.