Rekstrartekjur samstæðu Kögunar hf. námu samtals 12.181 milljónum kr. fyrstu níu mánuði ársins 2005. Rekstrartekjur jukust um 9.899 milljónir kr. og hafa fimmfaldast frá sama tímabili 2004. EBITDA er 982 milljónir kr. eða 8,1% af tekjum sem er í samræmi við áætlanir félagsins. EBITDA hugbúnaðarhluta samstæðunnar er 18,6% sem er umfram áætlun. Velta og afkoma vélbúnaðarhluta samstæðunnar voru undir áætlunum.

Hagnaður fyrir skatta er 564 milljónir kr. Hagnaður eftir skatta er 434 milljónir kr. sem er aukning um 91% frá sama tímabili 2004. Hagnaður á hverja krónu hlutafjár er 2,27 kr. Í ofangreindum samanburði mynda fleiri fyrirtæki Kögunarsamstæðuna en á sama tímabili 2004.

"Afkoma hugbúnaðarhluta Kögunar er sú besta frá upphafi og er EBITDA hlutfall fyrstu 9 mánuði ársins 18,6% sem er umfram áætlanir. Almennt má segja að fyrirtæki innan hugbúnaðarhluta samstæðunnar séu að skila góðri afkomu og að verkefnastaðan sé góð.

Þriðji ársfjórðungur er ætíð erfiður ársfjórðungur fyrir vélbúnaðahluta samstæðunnar að Íslandi undanskildu, afkoman í Svíþjóð er enn erfið auk þess sem umtalsverð styrking íslensku krónunnar gagnvart sænskri og danskri krónu veldur fráviki frá áætlunum. Starfsemin á Íslandi hefur gengið mjög vel og skilað góðri afkomu, veruleg veltuaukning er hjá Kerfi AS í Danmörku í kjölfar kaupanna á Work IT og Commitment Data AS og er fyrirtækið nú talið fjórða stærsta fyrirtæki á sínu sviði í Danmörku.

Í nóvember var tilkynnt um kaup Kögunar hf. á meirihluta hlutafjár í Hands ASA í Noregi og fylgir yfirtökutilboð til annarra hluthafa í kjölfarið. Á vegum Kögunar hf og Opin Kerfi Group hf er áfram unnið að frekari fjárfestingum erlendis og mun árangur þeirra umleitana skýrast á næstu mánuðum. Stjórn Kögunar hf hefur sett félaginu skýr markmið um öran vöxt á erlendum mörkuðum og hafa tveir stærstu hluthafar félagsins KB-Banki og Straumur-Burðarás fjárfestingabanki staðið vel við bakið á félaginu í þeirri viðleitni," segir Gunnlaugur M. Sigmundsson, forstjóri Kögunar í tilkynningu félagsins.