Skráð atvinnuleysi í febrúar 2010 var 9,3% eða að meðaltali 15.026 manns og eykst atvinnuleysi um 2,2% að meðaltali frá janúar eða um 321 manns.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar en á sama tíma á árinu 2009 var atvinnuleysi 8,2% eða 13.276 að meðaltali.

Atvinnuleysið er 9,9% á höfuðborgarsvæðinu en 8,2% á landsbyggðinni. Mest er það á Suðurnesjum 15% en minnst á Vestfjörðum 3,6%. Atvinnuleysið er 10,2% meðal karla og 8,1% meðal kvenna.

Á vef stofnunarinnar segir að oft sé lítil breyting á atvinnuástandi frá febrúar til mars.  Í fyrra hafi þó verið undantekning þar á en þá var enn talsverð aukning á atvinnuleysi eftir efnahagshrunið haustið 2008.  Þannig jókst atvinnuleysi um 9,6% frá febrúar til mars á árinu 2009.

Þá áætlar Vinnumálastofnun að atvinnuleysið í mars breytist lítið og verði á bilinu 9,1%-9,5%.  Í fyrra var atvinnuleysið 8,9% í mars.

Sjá nánar á vef Vinnumálastofnunar