*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 23. desember 2020 09:59

Tilboð Strengs í Skeljung of lágt

Gildi lífeyrissjóður, sem er næst stærsti hluthafi Skeljungs, ætlar ekki að samþykkja yfirtökutilboð Strengs í Skeljung. Telja verðið of lágt.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Gildi lífeyrissjóður ætlar ekki að samþykkja yfirtökutilboð Strengs í allt hlutafé Skeljungs. Gildi er næststærsti hluthafi Skeljungs með um tíu prósent hlut. Aðalástæðan er sögð vera vegna þess að sjóðurinn telur verðið of lágt, að því er Fréttablaðið greinir frá.

Í fréttinni segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, „að það séu ýmis tækifæri til staðar í félaginu og það liggja fyrir tvö sjálfstæð verðmöt sem gefa til kynna að virði Skeljungs sé talsvert meira en felst í yfirtökutilboðinu.“

Enn fremur segir Árni að kynningin sem Strengur birti hafi ekki verið trúverðug og gefi ekki rétta mynd af stöðu og rekstrarhorfum félagsins.

Það eru þrjú félög sem standa að baki Strengs, 365 hf., RES 9 og Loran. Téð félög lögðu öll bréf sín í Skeljungi í félagið Streng ehf. 365 er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur sem er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnarformanns Skeljungs. RES 9 er í eigu RES II sem er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttir, og No. 9 Investments Limited.

RPF er í jafnri eigu Loran ehf. sem er í eigu Þórarins A. Sævarssonar og Premier eignarhaldsfélags, sem er í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar.