Víkingaheimar sem hýsa Víkingaskipið Íslending og Smithsonian sögusýninguna „Víkings” verða opnaðir núna á föstudag á Fitjum í Reykjanesbæ. Markmið Víkingaheima er að gera svæðið að einum mest sótta ferðamannastað á Íslandi og hefur verið staðið þannig að verki frá upphafi segir í tilkynningu.

Framkvæmdir hafa staðið yfir við Víkingaheima síðan snemma árið 2007 en það var Guðmundur Jónsson arkitekt sem teiknaði húsið og verktakafyrirtækið Spöng sem byggði. Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar og samstarfsfólk hans sem átti frumkvæðið af því að Íslendingur komst í varanlega höfn í Reykjanesbæ en á tíma leit út fyrir að Íslendingur yrði seldur til erlendra aðila. Síðan fyrsta skóflustungan var tekinn hefur verkið verið á fullu stími þrátt fyrir ytri aðstæður.

Opnunin um helgina og út maí mánuð er nokkursskonar óformlega opnun en formlegum framkvæmdum í húsinu og uppsetningu á Smithsonian sýningunni lýkur ekki fyrr en í lok maí. Um er að ræða örfá lausa enda á tæknilegum útfærslum sýningarinnar. Forsvarsmönnum Víkingaheima fannst þó rétt að opna á þessum tímapunkti til að prufukeyra húsið og sýninguna og búa Víkingaheima undir ferðasumarið sem framundan er segir í tilkynningu.

Formleg opnun verður hins vegar ekki fyrr en 17. júní en þann sama dag árið 2000 lagði Íslendingur úr höfn í hina sögulegu siglingu til Ameríku.