Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,5% frá því að opnað var fyrir viðskipti kl. 10 í morgun og stendur nú þegar þetta er skrifað, kl. 12:00 í 640 stigum samkvæmt Markaðsvakt Mentis.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,2% í gær og hefur nú lækkað um 11% það sem af er þessari viku.

Á markaðssíðu vb.is má sjá helstu breytingar einstakra félaga.

Aðeins eitt félag, Eimskip hefur hækkað í morgun en 12 þúsund króna viðskipti hefur hækkað gengi félagsins um 30,7% í dag.

Alla þessa viku hafa mjög lítil viðskipti með bréf í félögum sveiflað til gengi þeirra. Sem dæmi má nefna að í gær lækkaði Bakkavör um rétt rúm 17% þó aðeins væru rúmlega 100 þúsund króna viðskipti með bréf í félaginu.

Heildarvelta með hlutabréf það sem af er degi er um 86 milljónir en þar munar mestu um 75 milljónir með bréf í Marel. Fyrir opnun markaða í morgun fóru fram stök viðskipti með bréf í félaginu fyrir 70 milljónir.

Þá er velta fyrir um 5,8 milljónir með bréf í Össu en nokkuð minni velta er með bréf í öðrum félögum.