Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 2,32% um hádegi og er 5.805 stig, samkvæmt upplýsingum frá Markaðsvakt Mentis. Fyrstu tvo viðskiptadaga ársins, síðasta fimmtudag og föstudag, lækkaði Úrvalsvísitalan samtals um 5,9% - sem er mesta lækkun á nýju ári frá því að Úrvalsvísitölunni var komið á fót árið 1993, samkvæmt upplýsingum frá greiningardeild Landsbankans.

Veltan nemur 4,6 milljörðum króna um hádegi. Öllu líflegri eru viðskipti með skuldabréf en þau nema 16,7 milljörðum króna.

Exista hefur lækkað um 5,75% - og um 16,96% á nýju ári, Spron hefur lækkað um 4,32% og 15,12% á nýju ári, Bakkavör hefur lækkað um 3,6% og 8,55% á nýju ári, Kaupþing hefur lækkað um 2,81% og 9,43% á nýju ári og Straumur hefur lækkað um 2,61% og 5,96% á nýju ári.

Stærstu viðskipi dagsins eru utanþingsviðskipti upp á 795 milljónir með bréf Kaupþings á genginu 795. Markaðsgengi bankans er 797 þegar þetta er skrifað. Lægsta gengi dagsins er 796. Hæst fór gengi bankans í 1281 19. júlí á síðasta ári.

Gengi krónu hefur styrkst um 0,04% og er 119,9 stig við hádegi. Flest allar vísitölur sem Euroland birtir eru rauðar í dag - en bandaríska vísitalan Nasdaq lækkaði um 4,2% síðasta föstudag. Danska vísitalan OMXC hefur lækkað um 2,35% og sænska vísitalan OMXS hefur lækkað um 0,79%.

Breska vísitalan FTSE 100 hefur hækkað um 0,25% en FTSE 250 hefur lækkað um 0,91%. Þá hefur norska vísitalan hækkað um 0,12%.