Til að tryggja gagnsæi í störfum lögreglu og tryggja málefnilega stjórnsýslu þarf að skoða sérstaklega hvort að hún sé rétti aðilinn til að gera úttekt á eigin aðgerðum, segir Pétur Berg Matthíasson, stjórnmála- og stjórnsýslufræðingur hjá embætti ríkislögreglustjóra, meðal annars í grein í nýjasta hefi tölublaðs Stjórnmála og stjórnsýslu.

Hann segir að stjórnvöld þurfi að stuðla að því að almenningur og aðrir geti treyst því að lögreglan leysi úr málum á hlutlægan hátt.

Ríkislögreglustjóri í hættu að verða vanhæfur

Pétur Berg segir m.a. í grein sinni, sem fjallar um nýskipan lögreglunnar og árangursstjórnun undanfarinn áratug, að mikilvægt sé að skoða verkefni ríkislögreglustjóra, fari fram heildarendurskoðun á breytingum á nýskipan lögreglunnar.

Og hann bætir við: „Lítið hefur verið fjallað um það hvort ríkislögreglustjóri, sem hefur eftirlitshlutverki að gegna, eigi ekki á hættu að gerast vanhæfur til þess að gera úttektir á starfsemi lögreglunnar þegar ýmsar framkvæmdardeildir embættisins eru aðilar máls. Í apríl 2008 greip lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til aðgerða gegn vörubílstjórum á Suðurlandsvegi. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða um aðgerðir lögreglunnar og þá sérstaklega hvort þær hafi verið of harkalegar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, aðili málsins, ákvað að gera úttekt á eigin aðgerðum. Hefði ríkislögreglustjóri átt að framkvæma þá úttekt? Hvað ef sérsveit ríkislögreglustjóra hefði tekið þátt í aðgerðunum, hefði þá átt að leita til Lögregluskólans eða annarra lögregluembætta til að gera úttektina?”

Í grein sinni fjallar Pétur Berg um hvernig árangursstjórnun lögreglunnar hefur verið háttað á tímabilinu 1996-2008 og hvernig þær miklu skipulagsbreytingar sem gerðar voru innan lögreglunnar í fyrra hafi haft áhrif á hana.

Segir hann um gjörbreytingu að ræða. Samfara breytingunum var stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk ríkislögreglustjóra eflt og reynir hann m.a. að greina nánar styrkleika og veikleika þessar breytinga.