Hf. Eimskipafélag Íslands samdi fyrr á árinu við ABN AMRO Bank í London um lánsheimild upp á allt að 300 milljónir evra til fimm ára eða sem samsvarar um 27 milljörðum íslenskra króna. Um er að ræða svokallað sambankalán en nú er hafin sala á láninu áfram til annarra banka og fjármálastofnanna.  Vaxtakjör lánsins eru tengd skuldasetningu félagsins hverju sinni og eru á bilinu 125 til 225 punktar ofan á grunnvexti.

Í fréttatilkynningu frá Eimskipafélagi Íslands segir að lánalínan verði nýtt til endurfjármögnunar, til rekstrar og til frekari vaxtar en Eimskip leitar stöðugt leiða til að styrkja öflugt flutninganet félagsins enn frekar. Lánalínan kemur til með að gefa Eimskip aukinn fjármálalegan sveigjanleika samhliða auknum umsvifum.

Í tilkynningunni er haft eftir Stefáni Á. Magnússyni, fjármálastjóri Eimskips:„Þessi lánsheimild er afar mikilvæg fyrir Eimskipi. Í fyrsta lagi er mikilvægt að hafa tryggt fyrirtækinu aðgang að fjármagni á þessum tímum þegar bankar eru að draga úr útlánum. Í öðru lagi tryggir sambankalánið áframhaldandi vöxt félagsins ef við finnum tækifæri sem við viljum grípa. Loks er það mikil viðurkenning fyrir Eimskip að ABN AMRO Bank skuli treysta félaginu jafn vel og þessi samningur ber vott um.“