

Peter t. Ørebech prófessor í lögfræði við Háskólann í Tromsø í Noregi er einn þeirra sem munu flytja erindi á opnum fundi í Háskóla íslands um aukið vald Evrópusambandsins í orkumálum hér á landi.
Segir hann ályktanir Birgis Tjörva Péturssonar í greinargerð fyrir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem birtust í september ekki standast að því er Morgunblaðið segir frá. Þar segir Örebech að eignarréttarákvæði um orkuauðlindir verði ekki undanskilin fjórfrelsinu og reglum innri markaðar um að ekki megi gera upp á milli fyrirtækja innan þess.
Birgir Tjörvi segir hins vegar að 125. grein EES samningsins um að ESB reglur hafi ekki áhrif á reglur um eignarrétt hér, en Ørebech bendir á að Evrópudómstóllinn geti og hafi sýnt það að orkumál séu ekki undanþegin.
Álit prófessorsins er þvert á álit sendiherra ESB á Íslandi en Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um orkupakkann. Skoðanakannanir sýna mikla andstöðu Íslendinga við upptöku pakkans en annar ræðumaður á fundinum segir mikla hagsmuni í húfi, en Bjarni Benediktsson hefur einnig gagnrýnt framkomu ESB í málinu.
Jafnframt gagnrýnir Ørebech þá fullyrðingu Birgis Tjörva að svo lengi sem íslenski markaðurinn sé ekki tengdur þeim evrópska með sæstreng gildi takmarkanir á viðskipti með raforku sem eru í EES samningnum.
Segir Ørebech þá niðurstöðu ranga, reglur um bann við slíkum takmörkunum taki þegar gildi við innleiðingu þriðja orkumálapakkans hér á landi og jafnframt geti Ísland ekki bannað einkaaðila að leggja sæstreng.
Því ef ágreiningur kæmi upp um lagningu sæstrengs, yrði það í höndum ACER, orkustofnunar ESB að úrskurða um það hvort leggja mætti sæstrenginn, ekki íslenskra stjórnvalda.
Heimsýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum heldur fundinn sem verður klukkan 17:15 í stofu HT-102 á Háskólatorgi Háskóla Íslands í dag. Aðrir ræðumenn verða Vigdís Hauksdóttir lögfræðingur og borgarfulltrúi og Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur.