Actavis og heilbrigðisyfirvöld eiga nú í samningaviðræðum um lækkun lyfjaverðs og segir Halldór Kristmannsson, talsmaður Actavis, að niðurstaðna úr þessum viðræðum sé að vænta innan skamms. Viðræðurnar stranda meðal annars á því hvort yfirvöld veiti Actavis heimild til að flytja hluta starfsemi sinnar úr Hafnarfirði til Bretlands

Markmið viðræðnanna er ná fram verulegri lækkun á verði samheitalyfja hér á landi. Könnun ríkisendurskoðunar leiddi í ljós að verð á sambærilegum samheitalyfjum sé allt að 47% dýrari á Íslandi en í Danmörku. Hærri kostnaður skýrist af minna úrvali ódýrra samheitalyfja hér á landi auk þess sem kostnaður við að dreifa, framleiða og selja lyf á Íslandi er mun hærri en annars staðar.

Páll Pétursson, formaður lyfjagreiðslunefndar, segir að viðræðurnar gangi vel og að nú þegar hafi náðst samkomulag um að Actavis lækki verð á allt að 45 tegundum samheitalyfja strax á næsta ári. Lækkunin nemur 130 milljónum á ársgrundvelli. Páll segir að það sé þó bara byrjunin en til standi að lækka lyfjaverð mun meira á komandi árum. "Actavis hefur samþykkt að lækka lyfjaverð þannig að það verði sambærilegt og annars staðar," segir Páll. Halldór bendir þó á í þessu sambandi að íslenski markaðurinn sé sérstakur fyrir margar sakir. "Markaðurinn er agnarsmár og lyfjamagn í umferð hér er mun minna en annars staðar. Lyfjamarkaðurinn í Danmörku er til dæmis tuttugu sinnum stærri og lyfjamarkaðurinn í Þýskalandi örugglega fimmtíu sinnum stærri," segir Halldór

Rautt ljós á flutning

Halldór segir að til þess að mögulegt verði að lækka samheitalyf meira sé nauðsynlegt að ná fram aukinni hagræðingu í rekstri, meðal annars með því að flytja hluta framleiðslunnar til Bretlands. "Við höfum lagt fram tillögu um að færa framleiðslu alls 20 lyfjategunda frá verksmiðju okkar í Hafnarfirði yfir til Bretlands. Þessi lyf eiga það sameiginlegt að vera framleidd í litlu magni og vera dýr í framleiðslu þar sem þau eru eingöngu fyrir Íslandsmarkað. Þannig gætum við náð fram mikilli samþættingu sem yrði til þess að verð þessara lyfja myndi lækka. En til þess að gera þetta þurfum við heimild frá heilbrigðisyfirvöldum," segir Halldór. Það sem stendur í vegi fyrir samþykki er reglugerð evrópska efnahagsvæðisins sem leyfir ekki að pakkningar lyfja séu á erlendu tungumáli. Að sögn Halldórs eru þó dæmi um að undanþágur frá þessari reglu hafi fengist. Við erum bjartsýnir á að undanþágu fáist enda eru miklir hagsmunir í húfi. "Að sjálfsögðu myndu íslensk fylgigögn fylgja með," segir Halldór. Hann segir að ef þessar breytingar myndu ná fram að ganga og heimildin fengist þá yrði það til þess að lyfin myndu lækka án þess að miklar breytingar yrðu á starsemi Actavis á Íslandi. "Við teljum að breytingarnar komi til með að hafa óveruleg áhrif á verksmiðju okkar í Hafnarfirði þar sem hún er hvort eð er fyrst og fremst í erlendri framleiðslu," segir Halldór.

Virðisaukaskattur lyfja hár hér á landi

Eitt eru þó bæði Halldór og Páll algjörlega sammála um og það er að athyglisvert sé að lyfseðilsskyld lyf skuli vera undanþegin þeim lækkunum sem nú eiga sér stað á virðisaukaskatti margra mismunandi vörutegunda. "Lækkun virðisaukaskatts lyfja úr 24,5%, eins og það er nú, niður í 7% myndi skila sér í verulegri lækkun lyfjaverðs," segir Páll Pétursson. Halldór segir það athyglisvert að á meðan lækkun virðisaukaskatts taki til munaðarvarnings á borð við geisladiska séu lyf látin sitja eftir. Páll bendir á að engin virðisaukaskattur sé á lyfjum í löndum á borð við Kanada, Bretland og Svíþjóð.