Actavis hefur sett nýtt samheitalyf á markað í Hollandi, Bretlandi og Svíþjóð samhliða því að einkaleyfi á lyfinu hefur runnið út. Lyfið sem um ræðir er blóðþrýstingslyfið Fosinopril sem framleitt er í tveimur styrkleikum í töfluformi. Í fyrstu eru um 13 milljónir taflna settar á markað en lyfið er afar mikilvæg viðbót við framboð Actavis af hjarta- og æðasjúkdómalyfjum. Ekki er búist við að sala lyfsins hafi teljandi áhrif á afkomu félagsins.

Fosinopril er aðallega notað við meðferð háþrýstings og hjartabilunar. Lyfið kom fyrst á markað í Evrópu árið 1990 en einkaleyfi þess rann nýlega út.
Þróunarvinna Actavis átti sér stað á Íslandi en frásogsrannsóknir fóru fram í Kanada.

Lyfið er framleitt í verksmiðju Actavis á Íslandi en Medis, dótturfélag Actavis, mun sjá um sölu lyfsins til þriðja aðila í Vestur-Evrópu. Actavis Nordic annast sölu lyfsins undir eigin vörumerkjum í Svíþjóð. Síðar á þessu ári er ráðgert að markaðssetja lyfið undir vörumerki Actavis í Austur-Evrópu.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri alþjóðlegrar sölu til þriðja aðila hjá Actavis, segir að Fosinopril sé fjórða samheitalyfið sem sett er á markað á vegum félagsins síðastliðnar fimm vikur. ?Starfsfólk í verksmiðju okkar á Íslandi hefur verið undir töluverðu álagi við að koma öllum þessum nýju lyfjum á markað um leið og einkaleyfi þeirra runnu út og á heiður skilinn fyrir að hafa gert markaðssetningu lyfjanna mögulega á réttum tíma. Fosinopril er mikilvæg viðbót við lyfjasafn okkar þó það verði ekki í hópi mest seldu lyfja frá okkur.?