Actavis Group hefur sett tvö ný samheitalyf á markað í níu Evrópulöndum í gegnum dótturfyrirtæki sitt, Medis. Viðskiptavinir félagsins gátu hafið sölu lyfjanna um leið og einkaleyfin féllu úr gildi. Um er að ræða taugalyfið Lamotrigine í tveimur lyfjaformum og nema upphafssendingar um 40 milljónum taflna. Lyfin eru góð viðbót við lyfjaúrval félagsins en þó er ekki búist við því að þau verði í hópi 10 söluhæstu lyfja samstæðunnar.

Lamotrigine er taugalyf ætlað til meðferðar við flogaveiki og til að fyrirbyggja geðsveiflur hjá sjúklingum með geðhvarfasjúkdóm. Lyfið kom fyrst á markað í Evrópu árið 1990 en einkaleyfisvernd lyfsins rann út 30. maí sl. Þróun Actavis á lyfinu hófst fyrir um 5 árum og fór að mestu fram á Íslandi. Lyfið hefur farið í gegnum flókið þróunarferli, frásogsprófanir, skráningarferli, framleiðsluferli og gæðaprófanir hjá Actavis áður en það kemst á markað. Bæði lyfjaformin, sem framleidd eru í verksmiðju Actavis á Íslandi, verða markaðssett undir eigin vörumerkjum Actavis sem og seld til þriðja aðila, sem selja lyfin undir sínum eigin merkjum.

Verkefnið heppnast með miklum ágætum

Að sögn Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, framkvæmdastjóra Sölu til þriðja aðila hjá Actavis, hefur undirbúningur að fyrstu markaðssetningu lyfjanna staðið lengi yfir. ?Framleiðsla lyfjanna og þróun hefur verið krefjandi en þó tekist vel og allir viðskiptavinir félagsins hafa getað hafið sölu lyfjanna um leið og einkaleyfi féllu úr gildi.?

Actavis er alþjóðlegt lyfjafyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu hágæða samheitalyfja. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar á Íslandi, starfar í 27 löndum í 5 heimsálfum. Starfsmenn eru um 7.000 talsins, þar af 470 á Íslandi.