Nýtt rannsóknarhús Actavis í Hafnarfirði hlýtur viðurkenningar Lagnafélags Íslands fyrir lofsvert lagnaverk fyrir árið 2006. Heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, afhendir viðurkenningar af því tilefni í dag, fimmtudaginn 18. október 2007 kl 17:00, við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Actavis að Dalshrauni 1 Hafnarfirði.

Í áliti viðurkenningarnefndar Lagnafélags Íslands vegna verðlaunanna nú segir m.a.:
"Öll gerð og frágangur lagna- og loftræstikerfa í nýju rannsóknarhúsi Actavis er til mikillar fyrirmyndar. Sérstaka athygli vekur fyrirkomulag tæknirýma þar sem séð er fyrir góðu aðgengi að tækjum og búnaði á öllum hæðum hússins, handverk iðnaðarmanna er allt til fyrirmyndar og má þar sérstaklega nefna pípulagnir."

"Lagnakerfi rannsóknarhússins eru allflókin enda um krefjandi starfsemi að ræða. Loftræstikerfið er með umfangsmiklum svæðaskiptum álagsstýringum og einnig má nefna að það nýtir varma frá kælikerfi hússins til upphitunar fersklofts. Auk hefðbundinna húskerfa eru í byggingunni nokkur lagnakerfi er þjóna sérhæfðum tækjabúnaði á rannsóknarstofum."

Rannsóknarhús Actavis var tekið í notkun haustið 2006 og hafði undirbúningur og bygging þess staðið í á þriðja ár. Húsið er um 3.200 m2 og þar starfa rúmlega hundrað manns. Húsið stendur við hlið eldra rannsóknarhúss og mynda byggingarnar eina heild fyrir rannsóknarstarfssemina.

Actavis verðlaunað öðru sinni
Þetta er í annað sinn sem húsbyggingar Actavis eru verðlaunaðar af slíku tilefni, því lyfjaverksmiðja Actavis í Hafnarfirði hlaut verðlaun Lagnafélagsins fyrir lofsvert lagnaverk árið 1998.

Eftirtaldir aðilar hljóta viðurkenningu Lagnafélags Íslands fyrir lofsvert lagnaverk í rannsóknarhúsi Actavis fyrir árið 2006:
Lagnatækni ehf, fyrir hönnun lagna- og loftræstikerfa, faglegt eftirlit, gangsetningu og stillingar.
Blikksmiðja Einars ehf, fyrir smíði loftræstikerfis
Björn Ólafsson ehf, fyrir smíði pípulagna
Vélsmiðja Þorgeirs, fyrir smíði gaslagna
Rafteikning, fyrir hönnun stjórnkerfis
Rafloft ehf, fyrir smíði stjórnkerfis
Úti og inni sf Arkitektar, fyrir samvinnu við gerð lagna- og loftræstikerfa
Actavis, fyrir vönduð lagna- og loftræstikerfi í rannsóknarhúsi að Reykjavíkurvegi 80

Lagnafélags Íslands veitir einnig sérstaka viðurkenningu fyrir gott handverk í Landsbankanum Vínlandsleið 1, Ólafi Vilhjálmssyni rafvirkja. Sérstök viðurkenning Lagnafélags Íslands veitt tveimur heiðursmönnum: Gunnlaugi Pálssyni, verkfræðingi og Helga Jasonarsyni, pípulagningameistara.