Actavis hefur dregið sig út úr viðræðum um kaup á Merck. Félagið hefur framkvæmt ítarlega áreiðanleikakönnun á Merck og skilgreint fjölmörg áhugaverð samlegðartækifæri með félögunum segir í frétt félagsins. "Hinsvegar telur stjórn Actavis að það verð sem talið er að samkeppnisaðilar hafi boðið í félagið, vera orðið mun hærra en svo að það þjóni hagsmunum hluthafa félagsins að halda áfram samningaviðræðum," segir í tilkynningunni.


"Við teljum að samruni Actavis og samheitalyfjasviðs Merck hefði getað verið áhugaverður. Við höfum hinsvegar mótað okkur skýra stefnu um að greiða ekki of hátt verð fyrir þau félög sem við fjárfestum í og með hagsmuni hluthafa að leiðarljósi var viðræðum okkar slitið. Áherslur okkar munu áfram beinast að því að efla undirliggjandi starfsemi félagsins og ná metnaðarfullum markmiðum okkar fyrir árið. Við teljum framtíðarmöguleika félagsins til áframhaldandi vaxtar og arðsemi sérlega góða og munum áfram leita leiða til að styrkja stöðu Actavis í hópi öflugustu samheitalyfjafyrirtækja heims,"  segir Róbert Wessman, forstjóri Actavis.