Gengið hefur verið frá samningi um kaup Actavis Group á bandaríska samheitalyfjafyrirtækinu Amide sem er óskráð fjölskyldufyrirtæki með aðsetur í New Jersey. Kaupverðið nemur allt að 500 milljónum Bandaríkjadala eða 33 milljörðum króna. Samningurinn felur í sér sameiningu tveggja öflugra samheitalyfjafyrirtækja með sterka markaðsstöðu í Evrópu annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar. Sameinað félag mun búa yfir einu mesta lyfjaúrvali á sínu sviði, með yfir 500 samheitalyf á markaði og lágmarksskörun milli lyfjaúrvals fyrirtækjanna.

Kaupin eru mikilvægur áfangi fyrir Actavis sem hefur að markmiði að verða leiðandi fyrirtæki í heiminum í þróun, framleiðslu og sölu samheitalyfja. Actavis nær fótfestu á markaði í Bandaríkjunum og verður kleift að markaðssetja lyf sín á stærsta lyfjamarkaði heims í gegnum sölustarfsemi Amide. Þannig fæst tækifæri til að auka tekjur félagsins, auka framlegð og styrkja stöðu Actavis-samstæðunnar. Þá gefst tækifæri til að markaðssetja lyf Amide á núverandi mörkuðum Actavis í Evrópu.

Samtals eru félögin með tæplega 140 lyf í þróun og skráningu og er þess vænst að sameiginlega leggi félögin inn 15 umsóknir um markaðsleyfi í Bandaríkjunum á þessu ári. Actavis fær aðgang að öflugri lyfjaþróun Amide og reynslu félagsins af skráningu nýrra lyfja á Bandaríkjamarkað. Við kaupin mun framleiðslugeta Actavis aukast um einn og hálfan milljarð taflna og hylkja á ári en með tilkomu nýrrar verksmiðju, sem er í byggingu, getur framleiðslugeta Amide aukist um aðra 6-8 milljarða taflna og hylkja á ári.

Samkomulag hefur náðst við alla lykilstjórnendur Amide um að halda áfram störfum hjá félaginu en forstjóri félagsins, Divya C. Patel, tekur sæti í framkvæmdastjórn Actavis. Starfsmenn Amide eru um 200 talsins.

Við undirritun kaupsamnings eru greiddar 500 milljónir Bandaríkjadala í reiðufé. Að auki verða greiddar allt að 100 milljónir Bandaríkjadala til seljenda sem eru skilyrtar af rekstrarniðurstöðu Amide 2005 og 2006. Við undirskrift endanlegs kaupsamnings mun sjóðsstaða Amide verða um 40 milljónir Bandaríkjadala. Kaupin eru háð samþykki bandarískra samkeppnisyfirvalda en búist er við að þau verði frágengin snemma á þriðja ársfjórðungi 2005.

Actavis mun fjármagna kaupin með eigin hlutabréfum (6,63% af eigin hlutafé), með útgáfu nýrra hluta að markaðsvirði 250 milljónir evra og með 5 ára sambankaláni að upphæð 500 milljónir evra en það verður jafnframt notað til að endurfjármagna eldri skuldir félagsins.

Róbert Wessman, forstjóri Actavis Group: ?Þessi kaupsamningur er mikilvægt skref á þeirri stefnu félagsins að verða í hópi leiðandi samheitalyfjafyrirtækja í heiminum. Amide hefur skilað mjög góðri afkomu og vexti síðustu ár, er með gott vöruúrval, öflugt þróunarferli og reynslumikla stjórnendur og starfsmenn. Fyrirtækið er með góða markaðsstöðu í Bandaríkjunum og veitir Actavis nauðsynlegan styrk til að markaðssetja eigin lyf þar. Kaupin veita einnig möguleika á góðum samlegðaráhrifum og gera félaginu kleift að nýta þau tækifæri sem gefast á hinum ört vaxandi markaði fyrir samheitalyf.?